18/2/2019

Mesta fjölgun í Sniglum samkvæmt nýafstöðnum aðalfundi FEMA

Höfundur:
Ingvar Ingvarsson
Hagsmunamál

Sniglar hafa um árabil átt aðild að FEMA, Evrópusamtökum mótorhjólaklúbba, og sóttu Sniglar aðalfund samtakanna þann 9 . febrúar síðastliðinn.

Fjöldi verkefna voru fyrirliggjandi á fundinum en eitt þeirra var kynnt til sögunnar í dag en það er samstöðusjóður fyrir mótorhjólasamtök víða um heiminn. FEMA eru stærstu skipulögðu samtök mótorhjólafólks og hafa sem slík einstakt tækifæri til að hafa áhrif á löggjöf innan Evrópusambandsins. En reynsla samtakanna er hinsvegar oft jafnvel dýrmætari þegar landssamtök þarfnast stuðnings til að ná fram breytingum á löggjöf, annarsvegar til að tryggja öryggi mótorhjólafólks og ýmsa mikilvæga hagsmuni þess og hinsvegar til að koma í veg fyrir illa ígrundaðar breytingar á löggjöf.

Þessa sérkunnáttu hafa Sniglar ítrekað nýtt sér t.d. við umsagnir á umferðarlögum, baráttu fyrir öryggi mótorhjólafólks t.d. vegna vegriða og sömuleiðis til að afla upplýsinga um tryggingakjör mótorhjólafólks í nágrannalöndunum. Sniglar eru ekki stór samtök í sniðum og þurfa að nýta allan þann slagkraft sem bakland mótorhjólfólks býður til þess að geta náð fram mikilvægum málum fyrir okkar skjólstæðinga. Samstöðusjóði FEMA er ætlað að styðja við mótorhjólaklúbba um allan heim og mun þannig virka sem miðlægur reynslugrunnur sem á eftir að nýtast vel við pólitíska stefnumótun í heimalöndum mótorhjólaklúbbanna.

Fjöldi flókinna málefna á dagskrá 2019

Málefnin sem FEMA skoðar þessi misserin eru annars fjölmörg og munu skipta okkur á Íslandi máli. M.a. má þar nefna löggjöf um rafvespur en þessi málaflokkur er í miklum ólestri á Íslandi og í Evrópu. Mismunandi hraðatakmarkanir hafa einnig komið til tals en sú ótrúlega hugmynd er á kreiki á meginlandinu að mótorhjól skuli hafa sama hámarkshraða og þau ökutæki sem eru þeim hættulegust - en það eru vörubifreiðar. Þessu verður harðlega mótmælt enda mun mótorhjólafólk ekki geta farið eftir slíkum reglum öryggis síns vegna. Þá var farið yfir tilvonandi lagabreytingar sem lúta að hljóðmengun frá ökutækjum sem og nýrri tækni sem getur verið mótorhjólafólki hættuleg eins og skynvædd hraðatakmörkun sem á bílum grípur inn í eldsneytisgjöf við tilteknar aðstæður en slíkt getur verið mótorhjólafólki hættulegt. Að lokum eru FEMA og Sniglar ávallt að vinna að því að bæta öryggi mótorhjólafólks í umferðinni og þá sérstaklega með tilliti til vegriða.

Það er von okkar að mótorhjólafólk um land allt styðji rösklega við bakið á okkur í ár enda gott tilefni til því Sniglar eru sá mótorhjólaklúbbur sem óx hraðast á síðasta ári af meðlimum FEMA eða um 79%. Með greiðandi meðlimum getum við látið til okkar taka í hagsmunabaráttunni en áður þurfum við að halda áfram að byggja upp samtökin. Í því sambandi minnum við líka á aðalfund Snigla sem verður laugardaginn 2. mars kl. 11:00. Við hvetjum ykkar til að mæta og bjóða ykkur jafnframt fram til verka.

Samvinna gefur slagkraft! Greiðið árgjaldið og verndum lífstíl okkar!

...

Nýlegar fréttir