12/10/2020

Yfirlýsing frá stjórn Snigla 2

Höfundur:
Jokka G Birnudóttir
Hagsmunamál

Yfirlýsing stjórnar Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Snigla

Stjórn Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Snigla, ályktar í kjölfar viðbragða Vegagerðarinnar við vantraustsyfirlýsingu stjórnarinnar að augljóst sé að Vegagerðin sé ekki megnug þess að byggja upp traust á starfsemi stofnunarinnar á ný.

Í viðtali við forstjóra Vegagerðarinnar, Bergþóru Þorkelsdóttur á Visir.is í dag er enn borið í bætifláka fyrir ábyrgðarleysi Vegagerðarinnar. Vegagerðin brást ekki við ábendingum og daufheyrðist við þeim þótt grafalvarlegar væru, líkt og Vegagerðin hefur jafnan gert á undanförnum árum í óteljandi tilvikum um land allt. Aðeins eftir banaslys var brugðist við.

Stjórnháttum verður að breyta, með fullkomnu gegnsæi

Vandi Vegagerðarinnar snýst því um stjórnhætti og vanhæfni. Stjórn Snigla telur að eina leiðin til að skapa traust á ný sé að Vegagerðin ástundi fullkomið gegnsæi og deili öllum upplýsingum um vegaframkvæmdir með opnum hætti, þar með talið upplýsingum um eftirlit með nýlagningu, hver framkvæmir eftirlitið, hver verktakinn er, hvaðan malbikið kemur, hvernig gengið er úr skugga um að vegarkafli uppfylli staðla, hvaða óháðu gögn liggi þar til grundvallar og hvert sé hægt að beina ábendingum og kvörtunum.

Öðrum kosti sé ekki hægt að sjá hvort Vegagerðin sinni raunverulega þeim verkefnum sem hún segist sinna og jafnframt sé þannig gert sýnilegt hvort Vegagerðin axli þá ábyrgð sem hún ber.

Þá telur stjórn Snigla að nauðsynlegt sé að kvartanir og ábendingar til Vegagerðarinnar séu birtar á sama vettvangi svo ekki sé hægt að skorast undan ábyrgð líkt og Vegagerðin hefur gert síðastliðin ár.

Fleiri stórhættulegir vegakaflar eftir sem Vegagerðin hefur ekki lagað

Í ljósi þess að Vegagerðin hefur lagfært suma þá lífshættulegu vegakafla sem malbikaðir voru í sumar er vert að beina þeirri spurningu til Vegagerðarinnar af hverju stórhættulegu malbiki á hringtorgum hefur ekki enn verið skipt út að sama skapi. Sú spurning hangir í loftinu hvort beðið sé eftir nægilega alvarlegu slysi til að bregðast við?

Stjórn Snigla skorar á Vegagerðina að skjóta sér ekki undan ábyrgð sinni með því að setja upp hálkuskilti í stað þess að skipta um malbik. Það getur ekki samrýmst nútíma stjórnháttum að leggja hættulegt malbik ítrekað og skjóta sér undan ábyrgð á því með því að setja viðvaranir með hálkuskiltum, eftir að tjón og slys verða. Engin hálkuskilti ættu að vera við nýlega lagða vegarkafla.

Sé staðan raunverulega þannig að Vegagerðin getur ekki lagt vegi sem eru öruggir þá beri Vegagerðinni skylda til að setja svo lágan hámarkshraða, með tilheyrandi eftirliti, að öryggi vegfarenda sé tryggt.

Frumkrafa stjórnar Snigla er að Vegagerðin taki upp gegnsæi í stjórnháttum sínum svo vegfarendur geti sjálfir staðreynt hvort brugðist sé við ábendingum, gæðaeftirlit sé raunverulegt og að starfsfólk Vegagerðarinnar axli beina ábyrgð á störfum sínum með sýnilegum hætti.

Í hópi á Facebook sem nefnist Vegir og Mótorhjól eru 2890 einstaklingar skráðir sem hafa fengið sig fullsadda af aðgerðarleysi Vegagerðarinnar en þar er reglulega kvartað undan því að Vegagerðin aðhafist ekkert þrátt fyrir ábendingar um hættuleg vinnubrögð.

Staðhæfing Vegagerðarinnar um að stofnunin leggi áherslu á að vinna með öllum sínum vegfarendahópum sé því innantóm. Staðreyndin er sú að Vegagerðin hefur hitt fulltrúa Snigla að því er virðist eingöngu í þeim tilgangi að sýnast eiga í samtali við hópinn. Vegagerðin hefur þannig hlustað en ekki aðhafst í kjölfar slíkra funda. Sniglar telja því rétt að umræðuefni slíkra funda séu skráð með gegnsæjum hætti þannig að ekki sé hægt að víkja sér undan þeim kröfum sem þar eru settar fram.

Að lokum bendir stjórn Snigla á að í dag, 10. október er enn  50 km/klst hámarkshraði og hálkumerking í gegnum Garðabæ til suðurs um Reykjanesbraut en þetta er ein fjölfarnasta leið landsins en nýtt malbik var lagt þar í sumar. Malbikið þar er enn glansandi og rennislétt og því vill stjórn Snigla spyrja Vegagerðina að því eftir hverju er verið að bíða?

...

Stikkorð:
Nýlegar fréttir