12/10/2020

Yfirlýsing frá stjórn Snigla

Höfundur:
Jokka G Birnudóttir
Hagsmunamál

Stjórn Snigla vill koma eftirfarandi á framfæri í kjölfar fréttaskýringaþáttsins Kveiks fimmtudagskvöldið 8. október þar sem grafalvarleg vinnubrögð Vegagerðarinnar voru opinberuð.

Forstjóri Vegagerðarinnar Bergþóra Þorkelsdóttir fer tvisvar með rangt mál þegar hún svarar Láru Ómarsdóttur í þeim tilgangi, að því er virðist vísvitandi, að skjóta sér undan ábyrgð Vegagerðarinnar á banaslysi á Kjalarnesi í júní 2020.

Ljóst er að kvartað hafði verið undan mjög sleipu malbiki þarna á laugardeginum fyrir slysið. Það er því rangt að vegagerðin hafi brugðist við kvörtunum um hættulegt malbik en slysið varð á sunnudeginum. Slysið hefur verið rannsakað og ekki er hægt að skjóta sér undan því að Vegagerðin aðhafðist ekkert vegna ábendinga. Vegagerðin sinnti heldur ekki eftirlitsskildu sinni því eftirlitsaðili setti ekki upp hálkuviðvörunarmerki fyrir slysið eins og Bergþóra gefur í skyn. Þetta er rangt, hálkuviðvörunarmerkin voru sett upp eftir banaslysið og til er myndefni sem sannar það. Fleiri slys hafa orðið á hringtorgum í borginni sem ítrekað hefur verið kvartað undan. Í dag hafa hálkuskilti verið sett upp við flest ef ekki öll þessi hringtorg í tilraun til að losa Vegagerðina undan ábyrgð í stað þess að malbika upp á nýtt með réttum hætti.

Stjórn Snigla lýsir fullkomnu vantrausti til Vegagerðarinnar og forstjóra Vegagerðarinnar enda ljóst að fyrirheit um betri vinnubrögð eru ekki annað en orðagjálfur. Fyrir hönd okkar félaga getum við ekki fallist á að lífi okkar sé stofnað í hættu vegna vanhæfni.

https://www.ruv.is/kveikur/stor-hluti-vegakerfisins-ber-ekki-umferdarthungann/?fbclid=IwAR10keaF-hqo85IwIXwrb4MaxSqiMlf_LZAaP9eAiLzXtlG5_tfwGGc13Ec

...

Stikkorð:
Nýlegar fréttir