30/5/2021

Vegagerð og framfarir

Höfundur:
Jokka G Birnudóttir
Hagsmunamál

Steinmar Gunnarsson hafði samband við Vegagerðina seint á síðasta ári og óskaði eftir fundi um samráð. Hafði hann fengið nóg af leiðinlegum kommentum á samfélagsmiðlum og persónulegum árásum á fólk.

Því erindi var vel tekið, og úr varð að Steinmar, ásamt Njáli Gunnlaugssyni og Gunnari Rúnarssyni hittu fulltrúa Vegagerðarinnar á reglulegum fundum. Gunnar hefur þó stigið til hliðar og í hans stað er kominn Hlífar Þorsteinsson.   Steinmar og Njáll gera þetta með umboði og stuðningi Snigla og vonandi alls bifhjólafólks á landinu.

Haldnir hafa verið nokkrir fundir og lék forvitni á hvað hefði komið fram á þeim fundum.

Ég tók Steinmar tali á dögunum og kom þá ýmislegt í ljós.

Fyrir það fyrsta ræddum við hringtorgin góðu, sem eru eins og glasaför allt frá Bauhaus á Vesturlandsvegi upp að Mofellsbæ.

“Við fengum útskýringu á hvers vegna þessi hringtorg eru svo hál síðla sumars og fram á haustið. Efnið í þessum hringtorgum er granít. Á veturnar þegar bílar eru á nagladekkjum, þá rispast yfirborðið og verður grófara en á sumrin þegar bílar eru á sumardekkjum slípast granítið til og verður þá hálla. Er við ræddum þetta ákvað Bergþóra (Þorkelsdóttir, yfirmaður Vegagerðarinnar) að þessi hringtorg yrðu öll malbikuð í sumar, þrátt fyrir að það væri ekki á fjárlagadagskrá Vegagerðarinnar.”

Það verður gleðiefni þegar búið er að malbika þau, því fólk finnur vel fyrir hálu yfirborðinu, líka á bílum. Þarna hafa orðið slys, sum mjög alvarleg.

“Við settum líka út á merkingar við framkvæmdarsvæði, en oft eru viðvörunarmerki alveg við svæðið, oft of fá, og jafnvel í þannig hæð að bílstjórar sjái þau ílla. Þau þurfa að vera fjær framkvæmdarsvæðum, og eins merkingar fremst á umferðareyjum, þau mega vera alveg 5m inn á eyjumum svo þau sjáist betur. Umferðar og upplýsingamerki sem skyggja á útsýni ökumanna fólksbíla, geta verið mjög hættuleg bifhjólamönnum. En við erum alveg farin að sjá betri merkingar, sem betur fer. Annað sem er gott að td á Kjalarnesi þar sem miklar vegaframkvæmdir eru núna, er orðið skylda að sópa götuna daglega svo ekkert grjót eða möl séu á veginum eftir að vinnudegi lýkur.”

Eins hefur orðið breyting á verklagsreglum gagnvart verktökum hjá Vegagerðinni.

“Meðan verktaki er í vegaframkvæmdum þá er ábyrgðin hjá verktakanum,hann tekur semsagt við sem veghaldari af Vegagerðinni, á meðan framkvæmdir eru. Vegagerðin setur fram þær reglur og kröfur sem þarf að fara eftir, en eftirlitsmaður getur sektað verktakann ef það er ekki farið eftir þeim, td um frágang og merkingar. Eftirlitsmenn eru á ferðinni um allt land þar sem eru framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar, þeir hafa eftirlit með þessum svæðum, taka út merkingar, umgengni og annað slíkt á svæðinu. Ef malbik er gallað er það lagað strax. Verkið fær ekki úttekt hjá Vegagerð fyrr en eftirlismaður gefur skýrslu til verkefnastjóra hjá Vegagerð og hann gefur skýrslu og þá má verktaki  hleypa umferð á svæðið. Eftirlitsmaður hefur ekkert með þetta að segja lengur né verktaki, það er verkefnastjórinn sem gefur grænt ljós, alveg sama hvað verktaki presssar á eftirlitsaðila þá gerist ekkert fyrr en verkefnastjórinn er búinn að skoða allt og gefur leyfi”

Það er auðvitað frábært að svona verklag er komið á, og er þetta svona um allt land.

“Til að gera eftirlitið enn betra, eru komnar tvær nýjar kerrur sem hálkumæla malbik.  Þær eru útbúnar þannig að mælingar eru sendar beint á netþjón hjá Vegagerðinni og upplýsingar koma fram í rauntíma. Það er ekki hægt að gera þessar mælingar um leið og malbik er lagt, heldur verða að líða 2-3 dagar frá niðurlögn til hálkumælinga. Eins verður yfirborðið að vera þurrt, en það er bleytt í mælingunni og er það gert til að hafa nákvæma stjórn á mælingunni sjálfri. Ég fékk að sjá hálkumælingar á nýju malbiki á Reykjanesbrautinni, þar sem viðnámið var 0,75, en lágmarkið er 0,55, sem er mjög góð niðurstaða.
Það sem gerðist á Kjalarnesi í fyrrasumar voru hræðileg mistök, eitthvað sem hvorki verktaki né Vegagerð hafði séð áður. Eitthvað fór úrskeiðist í blöndunni, þau  vissu ekki hvað þetta var alvarlegt, en viðnámið var 0,01 sem er eins og fljúgandi hálka.”

Það fer um mann ónotahrollur vil tilhugsunina um þetta hræðilega slys.

 

Vegrið með vírum? Á að taka þau niður eða ekki setja fleiri?

“Ég hef komið á framfæri upplýsingum og skýrslum um svona vegrið til Vegagerðarinnar. Það eru mjög miklar líkur á að við höfum getað komið í veg fyrir uppsetningu á vegriði sem er mjög hættulegt bifhjólamönnum á Vesturlandsvegi, milli Skarhólabrautar og Langatanga í Mosbæ.Þar hafði verið sett upp hefðbundið W-laga vegrið, en vegna mistaka fæst ekki vottun á það og það stóð til að skipta því út með annarri gerð eins og er milli KFC í Mosbæ og Varmár.

Vegrið á Vesturlandsvegi

" Í staðinn viljum við sjá undirakstursvörn."

Undirakstursvörn er ekki með vírum né staurum.

 Það er slétt klæðning sem er rétt ofanvið yfirborðið, þannig ef bifhjólafólk dettur og rennur áfram lendir það á sléttum fleti, ekki staurum eða vír.  Þetta er jafnvel meira öryggi fyrir bíla lika, verður meira heilt, ekki staurar sem hægt er að skella á. Þið getið séð svona undirakstursvörn við Kópavogslækinn. Í rauninni þarf bara svona vegrið í utanaverðum beygjum, á löngum beinum köflum skiptir þetta minna máli. Í sambandi við snjósöfnun þá skiptir þetta engu máli í þéttbýli, en gæti verið verra á leiðum sem er minni umferð og meira snjómagn.”

Þannig ef við tökum þetta allt saman í eitt erindi þá er búið að ; taka á merkingum, frágangi, umgengni um vinnusvæði, gæði malbiks, og núna er verið að vinna í vegriðum, hæðum á skiltum og staðsetningum við vinnusvæði.

Góðir hlutir að gerast, en við erum rétt að byrja. Það er ansi hart að það þurfi hræðilegt slys til að fólk fari að tala saman, vinna saman og bæta vinnueftirlit, en gott að það er komið af stað.

Ég þakka Steinmari fyrir sín störf og öllum þeim sem koma að þessum málum.

 

...

Stikkorð:
Nýlegar fréttir