22/8/2018

Lögreglustjóri Suðurnesja vinnur enn gegn þátttöku bæjarbúa á Ljósanótt

Höfundur:
Njáll Gunnlaugsson
Hagsmunamál

Nokkurrar óánægju hefur gætt síðustu ár vegna ákvarðana Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, sem gengur lengra en góðu hófi gegnir í störfum sínum í tengslum við Ljósanótt. Árið 2016 meinaði lögreglustjórinn Fornbílaklúbbnum þátttöku í Ljósanótt en nú virðist sem leyfa eigi þátttöku íbúa í hópakstri fornbíla og mótorhjóla aðeins með því skilyrði að eigendur skrái sig og ökutækin til þátttöku. Mörgum þeim sem hugðu á þátttöku í Ljósanótt þykir þetta heldur langt gengið enda er hlutverk lögreglunnar ekki dagskrárvald og umsjón með þátttakendum heldur almenn löggæsla. Stjórn Snigla ályktar að það vinni gegn tilgangi Ljósanætur sem menningar- og fjölskylduhátíðar að gera kröfur um að íbúar skrái sig og ökutækin til þátttöku vegna öryggissjónarmiða. Hræðsla við hryðjuverk virðist vera ástæðan. Það ætti að vera nægilegt að gera ráðstafanir gagnvart hverjum klúbb eða viðburði fyrir sig og bera traust til meðlima þeirra til að fara að þeim lögum og reglum sem sett eru. Að sá fræjum vantrausts í litlu samfélagi vegna meintrar utanaðkomandi ógnar stappar nærri því að vera pólitísk ákvörðun sem ætti ekki að vera á hendi lögreglustjórans, er mat stjórnar Snigla á þátttökulistanum.

...

Nýlegar fréttir