24/10/2018

Fundur stjórnar Snigla með Ráðherra

Höfundur:
Steinmar Gunnarsson
Hagsmunamál

Stjórnarmeðlimir Bifhjólasamtaka lýðveldisins áttu fund með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í dag, 24. október, vegna frumvarps til nýrra umferðarlaga sem lagt var fram á Alþingi í gær. Sniglar sem hagsmunasamtök gerðu athugasemdir við frumvarpið og lýstu yfir óánægju með að hafa ekki verið kallaðir til samstarfs við vinnu vegna frumvarpsins og ítrekuðu að stjórnhættir ráðuneytisins ættu að tryggja Sniglum sem hagsmunasamtökum samráð í málum sem varða meðlimi samtakanna.

Sniglar lögðu fram þrjá áherslupunkta til viðbótar á fundinum sem snúa að jafnræði aldursskilyrða til ökuréttinda en þar eru gerðar íþyngjandi kröfur til vélhjólafólks sérstaklega, rætt var um "rauða dregilinn" eða forgangsakreinar strætisvagna sem samtökin telja að æskilegt sé að nýta einnig fyrir forgangsakstur bifhjóla og reiðhjóla í þeim tilgangi að létta á umferð og tryggja öryggi vegfarenda og því tengt var einni minnst á "filtering" eða að opna á þann möguleika að bifhjól geti við ákveðin skilyrði farið á milli bifreiða. Loks nefndu Sniglar hættuna sem stafar af uppsetningu vegriða í þeim tilfellum sem ekki er tekið tillit til vélhjólafólks og var skortur á undirakstursvörnum nefndur sérstaklega í því samhengi.

Ráðherra þakkaði Sniglum fyrir athugasemdirnar og vísaði til þess að framundan væri tækifæri til að koma athugasemdum að þegar umhverfis- og samgöngunefnd fengi frumvarpið til umsagnar. Sniglar hafa þegar sett sig í samband við ritara nefndarinnar í þeim tilgangi að tryggja að ofangreind sjónarmið vélhjólafólks komist að í umsögn, hvort heldur sem er í umferðarlögunum sjálfum eða í reglugerðum.

...

Nýlegar fréttir