8/10/2018

Fregnir af nýliðnum Fema fundi

Höfundur:
Steinmar Gunnarsson
Hagsmunamál

Á nýafstöðnum fundi Fema, sem Sniglar eiga aðild að, var meðal annars rætt um stöðu tryggingamála í löndum Evrópu. Þar kom fram að bifhjólafólk í öðrum Evrópulöndum háir svipaða baráttu við tryggingafélög, eins og bifhjólafólk á Íslandi. Þetta er þó mismunandi eftir löndum og skiptir einnig miklu máli hvort stundaðar eru einhverjar mótorsport greinar á bifhjólum, í viðkomandi landi.

Í nokkrum landanna virðist vera tilhneiging hjá tryggingafélögum að velta kostnaði við keppnisgreinar út í almennar bifhjólatryggingar, sem óásættanlegt, þar sem hugsanlegur kostnaður við eina grein ætti ekki að vera íþyngjandi fyrir aðrar greinar. Í þessu mun aðildarfélög Fema vinna, hvert í sínu heimalandi og hefur stjórn Snigla rætt um, til hvaða aðgerða er hægt að grípa á Íslandi. Til þess að eiga eitthvað til grundvallar, þegar kemur að þessu máli, þarf stjórn samtakanna að biðja félagsmenn um að senda okkur raunverulegar upplýsngingar og helst ljósrit af rukkunum frá tryggingafélögunum.

Stjórnin mun senda út tilkynningu um þessar aðgerðir seinna í októbermánuði.

Annað mál sem var rætt á þessum var viðfangsefnið: hávaði eða hljóð ?

Þar var kynnt könnun sem var gerð meðal meðlima aðildarfélaga Fema um hverjar skoðanir fólk hefði á opnum pústkerfum og þeim hljóðum sem því fylgja. Einnig voru félagar spurðir um til hvaða aðgerða yfirvöld væru líkleg til að taka, svo sporna mætti við hávaðamengun frá bifhjólum.

Mismunandi er á milli landa hvaða reglur gilda um hámarksgildi hljóðs frá bifhjólum og skera Íslendingar og Finnar sig úr hvað varðar rýmd reglna. Frakkar hafa einnig tiltölulega rúmar reglur, en aftur ámóti er eftirlit með hávaðamengun meira þar en annarsstaðar. Í Þýskalandi hefur mörgum vegarköflum verið lokað vegna mikilla kvartana íbúa nærliggjandi hverfa vegna hávaða frá akstri bifhjóla. Þessar lokanir eru gerðar í nafni öryggis vegna aukinnar slysahættu.

Það kom fram í þessari könnun að almennt séð voru félagsmenn ekki hlynntir rýmri reglum varðandi hávaða, en aftur á móti var krafa um aukið eftirlit yfirvalda; þ.e. lögregla gæti stoppað bifhjól og gert hávaðamælingar við götubrún, eða kallað ökutæki inn til skoðunar.

Stefna Snigla í þessum málum er einfaldlega sú að fólk fari eftir settum lögum og reglum í þessum efnum sem og öllum öðrum sem snúa að notkun bifhjóla.

...

Nýlegar fréttir