7/1/2019

Bréf frá formanni - Kominn tími til að hleypa öðrum að

Höfundur:
Njáll Gunnlaugsson
Hagsmunamál

Bréf frá formanni - Kominn tími til að hleypa öðrum að

Það getur stundum verið erfitt að deila sér á milli þess að vinna 100% vinnu sem ökukennari, aukavinnu sem ritstjóri, rækta samband við börnin sín þrjú og vera þar að auki formaður Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla. Einhvernveginn hefur það allt saman gengið blessunarlega en það læðist samt að manni sú hugsun hvort að ekki sé kominn tími á að hleypa yngra fólki að með nýjar og ferskar hugmyndir. Eftir að hafa gengt hinum ýmsu störfum fyrir Snigla í aldarfjórðung hef ég ákveðið að bjóða mig ekki aftur fram sem formaður á næsta aðalfundi. Þau sem halda áfram í stjórn munu þó geta leitað til mín ef á þarf að halda og ég óska meðstjórnendum mínum sem ætla að halda áfram velfarnaðar í starfi. Ég tel okkur að vera að skila góðu búi, með margt spennandi í farvatninu. Félögum í Sniglunum hefur fjölgað um helming á tveimur árum, búið er að koma út nýrri heimasíðu, Sniglar eru aðilar að nýrri bifhjólakennslubók og svo mætti lengi telja. Ég get með sanni sagt að starf fyrir Snigla er mjög skemmtilegt enda hefði maður líklega ekki enst allan þennan tíma ef svo væri ekki. Framundan er skipulag vegna 1. maí keyrslu og 35 ára afmæli samtakanna svo þar er margt sem ný stjórn getur valið að taka sér fyrir hendur. Takk kærlega fyrir að leyfa mér að vinna að hagsmunastarfi bifhjólafólks á Íslandi, því það veitir ekki af.

Hjólakveðja, Njáll Gunnlaugsson, fráfarandi formaður.

Frá fyrsta Evrópufundi Snigla sumarið 1995. Þarna var undirritaður (lengst til hægri) með sítt hár og nokkrum kílóum léttari.

...

Nýlegar fréttir