4/3/2023

Skýrsla stjórnar, aðalfundur 2023

Höfundur:
Steinmar Gunnarsson
Ársskýrslur

Aðalfundur Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla 4. Marz 2023

Skýrsla stjórnar

Þann 3. Marz 2022 var haldinn aðalfundur Snigla.

Þá var kosið til stjórnar, sem lög gera ráð fyrir og var Steinmar Gunnarsson kosinn inn sem og Jokka G. Birnudóttir endurkjörin til áframhaldandi setu í stjórn.

Starfsárið 2022-2023 var stjórnin því skipuð sem hér segir:

1)     Þorgerður Hoddó Guðmundsdóttir,formaður

2)     Sveinn Óðinn Ingimarsson,varaformaður

3)     Jokka G. Birnudóttir, gjaldkeri

4)     Hafsteinn Vattnes, meðstjórnandi

5)     Steinmar Gunnarsson, ritari

Varamenn voru kosnir:

1)     Ari Karlsson

2)     John Arneson

3)     Vilberg Kjartansson

Að venju var haldinn vorfundur í samstarfi við Samgöngustofu og var hann haldinn í húsnæði ökuskólans við ökugerðið, sem er á sama stað og kvartmílubrautin í Hafnarfirði. Fundurinn var geysilega ve lsóttur; haldin voru áhugaverð erindi og boðið var upp á æfingaakstur á hringakstursbrautinni. Sú æfing þóttist heppnast svo vel að okkur tókst að bjóða upp á hliðstæðan viðburð um miðjan júní og komust færri að en vildu.

Okkar árlegi hópakstur var haldinn 1. Maí og var þátttakan framar öllum vonum, eða um það bil 1000 hjól, en einnig lögðu margir leið sína í Bauhaus þar sem endastöð keyrslunnar var, líkt og allnokkur fyrri ár.

Steinmar, ritari Snigla, fór á vorfund Fema,sem að þessu sinni var haldinn í Danmörku, en þetta var fyrsti fundurinn þar sem Fema hópurinn hittist síðan í febrúar 2020. Steinmar situr stjórn Fema og hefur gert síðan 2020, en Sniglar eiga þar sína málpípu sem ein minnstu hagsmunasamtökin sem aðild eiga að Fema. Vera Snigla í Fema er nauðsynleg okkur þar sem Fema er með 2 starfsmenn í fullri vinnu við að gæta hagsmuna bifhjólafólks um gjörvalla Evrópu og ekki veitir af.

Samkvæmt venju var opið hús alla miðvikudaga frá 1. apríl til loka október. Aðsókn var mjög góð og oft var boðið upp á eitthvað með kaffinu; vöfflur, tertur og sannar sögur bifhjólamanna.

Sniglar héldu happadrætti til styrktar Grensás, þar sem ekki var hægt að notast við hefðbundnar leiðir til þeirrar fjáröflunar en að þessu sinni söfnuðust  231.500 krónur sem renna beint til Grensáss.

Sniglafréttir voru gefnar út einu sinni á síðasta ári og var það í apríl. Mikil vinna liggur að baki hverri útgáfu Sniglafrétta og oft hefur gengið brösuglega að fá efni, þrátt fyrir fögur fyrirheit ýmissa aðila þar að lútandi. Við hvetjum félagsmenn til að festa á blað sem flestar þær sögur sem hægt væri að segja í Sniglafréttum og senda þærá ritara Snigla á póstfangið 1858@sniglar.is

Í samvinnu við, og með styrk frá Samgöngustofu,vorum við með auglýsingar á ljósaskiltum (billboard) á völdum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Á þessum skiltum minnum við á okkur og okkar málstað. Þetta munum við gera að nýju í ár og að sjálfsögðu með stuðningi frá Samgöngustofu.

Undanfarin tvö ár hafa Sniglar verið í samvinnu við Vegagerðina þar sem við höfum komið okkar áherslum til skila beint til þeirra sem hafa tök á því (og vilja til) að bregðast hratt og vel við okkar umkvörtunum og þeim hjartans málum sem að bifhjólafólki snúa. Þetta samstarf mun halda áfram og ef þið, kæru félagar, viljið koma einhverju á framfæri við Vegagerðina er best að senda skilaboð beint á Snigla í gegnum fésbókina og munum við bregðast við hið snarasta. Einnig er hægt að senda póst á 1858@sniglar.is með fyrirspurnir og ábendingar.

Steinmar hefur unnið að því að koma á virku samstarfi við Samgöngustofu, einkum í samstarfi við Einar Magnús Magnússon öryggisfulltrúa, en hann tók einmitt þátt í öryggisráðstefnu bifhjólafólks IFZí Köln í október síðastliðnum, ásamt ritara Snigla.

Mig langar að minna á að allt þetta starf er unnið í sjálfboðavinnu (eins og undanfarna áratugi) og krefst oft mikillar vinnu á kvöldin og um helgar. Þess vegna hvetjum við alla sem geta og vilja leggja okkur lið, að bjóða sig fram til starfa fyrir Snigla, því margar hendur vinna létt verk.

Fjölskyldudagur Snigla var haldinn á fallegum og sólríkum síðsumardegi í áliðnum ágústmánuði í garðinum við gamla Gufunesbæinn. Þar mættu margir í grillaðar pylsur, kaffi og kökur.

Þegar leið á haustið og vetur konungur fór að sýna sig, tóku hjólarar að draga sig og farartækin inn í vetraskelina, en engu að síður hafa Sniglar haft opið hús í Sniglaheimilinu annan miðvikudag í hverjum mánuði (nóvember-marz). Í febrúar var ákveðið að fá Kristján Gíslason hringfara til að halda myndasýningu og segja frá ferðum sínum um heiminn. Fyrirlesturinn var þokkalega sóttur og að vonum voru gestir ánægðir með ferðasögu Kristjáns, en hann hefur einstakt auga fyrir smáatriðum í landslagi og ótrúlega hæfileika til að ná sambandi við fólk á framandi slóðum og líka þann hæfileika að geta unnið traust fólks á undraskömmum tíma, enda einstakur maður sjálfur.

Við þennan pistil mætti eflaust bæta einhverju, en ekki er talið gott að hafa svona skýrslu of langa eða fulla málalenginga. Því telst þessari upptalningu á atburðum, vinnu og viðburðum síðasta starfsárs, lokið.

 

Með kærri kveðju til ykkar allra

Steinmar Gunnarsson

Ritari Snigla

 

 

...

Nýlegar fréttir